
Saga - Menning - Samhengi - Trú
Biblían á mannamáli er daglegt hlaðvarp, þar sem við lesum saman í Nýja testamentinu og ræðum textann á einföldu, skýru og lifandi máli. Við tengjum Gamla og Nýja testamentið saman; rýnum í Biblíuna með kærleikann að leiðarljósi; eigum viðtal við alls konar fólk og hressum upp á sálartetrið með góðu gullkorni hvern dag. Markmiðið er að gera þennan forna texta, sem hefur mótað menningu okkar og sögu, aðgengilegan fyrir alla.
Hæ, hæ, það er okkur heiður að hafa þig með í hópnum!
Við erum Halldór Lár og Árný Björg Blandon, ásamt fjölda fólks á öllum aldri, sem hefur áhuga á því að vita um hvað Biblían fjallar og helst skilja hana betur.
Við höfum lesið og skoðað Biblíuna í mörg ár og stundum alla bókina á hverju ári. Í gegnum tíðina hefur slíkt lestrar-ferðalag oft fengið okkur til að staldra við, spyrja spurninga og jafnvel brjóta heilann um merkingu og samhengi. Smátt og smátt hefur hins vegar kviknað ljós innra með okkur, sem hefur sýnt okkur ótvírætt gildi þess að kafa aðeins í textann.
Biblían er eins og skel, sem inniheldur dýrmætar perlur. Skelin sjálf er lítils virði, ef engar perlur finnast. Að skoða Biblíuna vel, getur aldrei gefið okkur neitt minna en aukinn fróðleik og innsæi, hvað sem okkur annars finnst um bókina. En, það getur líka leitt okkur að perlum, dýrum fjársjóði, sem rétt eins og fjársjóður yfirleitt gerir, breytir lífinu til batnaðar.
Við erum forvitin og áhugasöm um allt sem viðkemur leit mannkynsins að kærleika og friði, sannleika og réttlæti. Við höfum áttað okkur á því, að Biblían fjallar alveg sérstaklega mikið um þessa þætti. Þess vegna er það, sem við viljum deila af reynslu okkar og uppgötvunum með þér - á mannamáli. Rétt eins og með okkur, þá höfum við fulla trú á því, að þú munir finna eitthvað athyglisvert og gefandi fyrir þitt líf. Við skoðum til dæmis ýmsa lífsspeki, sem snýr að samskiptum, fyrirgefningu, streitu, áhyggjum, innri ró, tilgangi, manngildi, samkennd, trú ofl. ofl. Það er margt sem kemur á óvart og ekki endilega allt eins og ætlað er.
Einn þáttur á dag, alla daga ársins, eru margir þættir og því alveg eðlilegt að spyrja hvort tími sé til að hlusta á þá alla? Sumir vilja daglega hlustun, sem veganesti inn í daginn - og þar kemur gullkorn dagsins sterkt inn í upphafi hvers þáttar. Þó það sé auðvitað best að hlusta á hvern þátt, skaltu ekki hafa áhyggjur af því að geta ekki alltaf hlustað á alla þættina í röð. Sú mynd sem dregst upp yfir árið, stendur sterk þó ekki hafi verið hlustað á hvern einasta þátt. Það má líka alltaf hlusta á hluta þáttar, en hver þáttur hefur að geyma mismunandi kafla. Svo byrjum við aftur í upphafi hvers árs, með nýjum áherslum og gullkornum; það hjálpar til við að púsla allri myndinni saman í fallega heild.
Halldór, sem er rithöfundur með meistaragráðu í trúarbragðafræðum, sér um stjórn þáttanna og Árný, sem hefur margra ára reynslu í textavinnslu og þýðingum, skannar Biblíuna stöðuglega eftir áðurnefndum perlum og áhugaverðri nálgun á efnið.
Ef þú ert með spurningar, eða jafnvel vangaveltur, sendu okkur þá línu á biblianam@outlook.com
